1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

×

Viðvörun

Klassi SimpleCalendarModelEvents fannst ekki í skránni

Gleðivika

Ritað .

Þessi vika var gleðivika í Ingunnarskóla og hefur margt verið sér til gamans gert á öllum svæðum og nemendur skemmt sér vel í margskonar verkefnum.

Nemendur 1.-2. bekkjar eru búin að vera að fást við fjölbreytt og skemmtileg viðfangsefni. Lögð var áhersla á gleði og gaman. Meðal annars var haldin sýning á sal þar sem börnin fengu tækifæri til að láta ljós sitt skína. Sóla sögukona kom í heimsókn, sagði þeim sögur og fengu krakkarnir að skoða sögubílinn Æringja.

3.-4. bekkur fór í heimsókn í Gufunesbæ og hafa verið að vinna með söguna um Ronju ræningjadóttur. Ronjuleikar voru haldnir í íþróttum og unnin voru margskonar verkefni út frá bókinni.

Nemendur 5.-6. bekkjar voru mikið að vinna með Múmínálfana og endursköpuðu m.a. heimkynni þeirra í stofunni sinni. Einnig voru þau með víkingaþema sem þau tengja við Snorra sögu sem þau eru að vinna með í þema.

Nemendur 7. bekkjar voru að vinna á allskonar stöðvum í vikunni. Þau gátu búið sér til náttúrulega maska, fóru í jóga, léku sér úti og lærðu heilmikið um Evrópu. Þau föndruðu, spiluðu og fóru í spurningakeppni og gerðu sér margt til skemmtunar. 

Nemendur 8.-10. bekkjar fengu að velja sér stöðvar sem þau flökkuðu á milli í vikunni. Þau gátu meðal annars farið í hjólaferð, prjón, origami, fimleika og skauta í Egilshöll.

Einn af hápunktum gleðivikunnar er síðan Danskeppnin, sem nemendur 6.-10. bekkjar eru þátttakendur í. Fjöldinn allur af hópum/einstaklingum tók þátt og var gaman að sjá hvað nemendur lögðu mikinn metnað í atriðin sín sem voru hvert öðru flottara.

Halli íþróttakennari hefur haft veg og vanda af skipulagningu keppninnar og hafa í síðustu vikum farið fram undankeppnir í íþróttatímum bekkjanna.

Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin og sérstök verðlaun fyrir björtustu vonina.  Bjartasta vonin voru Iðunn í 6.b. Í 3. sæti voru Gylfonso og veganpullurnar en þann hóp skipuðu drengir úr 10. bekk og í 2. sæti var Gúrkuvinafélagið sem skipað var stúlkum úr 7. bekk. 1.sætið hlaut hópurinn Tikka Masala úr 9. bekk og áttu þau það svo sannarlega skilið.

Myndir af danskeppninni eru í myndasafni. Fleiri myndir frá gleðivikunni verða síðan settar inn í myndasafn.
IMG 0061 Large

Árshátíð unglingadeildar

Ritað .

Fimmtudaginn 22.mars næstkomandi verður árshátíð nemenda í unglingadeild Ingunnarskóla haldin með pompi og prakt.  Húsið opnar kl. 18:30 og hefst matur kl. 19:00 en gleðin stendur svo til kl. 23:00 um kvöldið. 10.bekkur hefur séð um skipulag viðburðarins og selt miða undanfarna daga. Það kostar 3.700 krónur fyrir nemendur á árshátíðina. Grillvagninn sér um veitingarnar en í matinn verður kalkúnn og lambakjöt með frönskum, fersku grænmeti og öðru meðlæti. Í eftirrétt verður súkkulaðikaka og ís. 

Á meðal skemmtiatriða verður nemendagrín og kennaragrín, leynigestur mætir á svæðið þegar líða tekur á kvöldið og enda herlegheitin á balli þar sem Egill Spegill spilar fyrir krakkana.

people partying clipart party people clipart 6

PISA könnun í 10. bekk Ingunnarskóla

Ritað .

Á morgun, þriðjudaginn 13. mars, verður PISA könnunin lögð fyrir 10. bekk í Ingunnarskóla. Nemendur mæta í skólann klukkan 8:45 og prófið hefst klukkan 9:00. Afar mikilvægt er að nemendur séu mættir vel tímanlega til að forðast allt óþarfa stress. 

PISA – tímaplan fyrir nemendur

08:45  Nemendur mæta
09:00 – 09:20 Innskráningarblöð, lykilorð og kynning á könnuninni
09:20 – 10:20 Fyrri prófhluti
10:20 – 10:25 5 mínútna hlé
10:25 – 11:30 Seinni prófhluti
11:30 – 11:45 15 mín hlé – hressing í boði
11:45 – 12:30 Spurningalistar nemenda
                                Að loknu prófi geta þeir nemendur sem eru í mataráskrift fengið sér hádegismat. 

10. ÞA fer í íþróttir eftir hádegi.

Atriði sem mikilvægt er að hafa í huga:

• Að nemendur séu mættir tímanlega til að forðast óþarfa stress.
• Að nemendur séu búnir að borða góðan morgunmat áður en þeir mæta (þeir geta fengið hafragraut í skólanum) og séu vel úthvíldir. 
• Ekki er leyfilegt að vera með mat né drykk inni í prófstofu (reglur frá PISA) en boðið verður upp á hressingu í hléunum (brauðmeti, ávexti og drykki).
• Nemendur þurfa að sitja inni í könnuninni út allan tímann eða til 12:30. Mikilvægt er að þeir séu með yndislestrarbók til að lesa ef þeir klára könnunina áður en tímanum lýkur.
• Nemendur eiga að slökkva alveg á símunum sínum meðan á könnuninni stendur. 

Vegna samræmdra prófa í 9. bekk

Ritað .

Vandamál með aðgengi að prófakerfi samræmdra prófa kom upp við prófatöku í morgun á svipaðan hátt og síðastliðinn miðvikudag og var vandinn almennt yfir landið. Þetta lýsti sér á þann hátt að stór hluti nemenda náði ekki að tengjast prófinu og sumir náðu tengingu og duttu öðru hvoru út. Nokkrir náðu þó að klára prófið en aðrir fóru heim eftir að tilkynning barst frá Menntamálastofnun um að ákvörðun hafi verið tekin um að fresta fyrirlögn prófsins.

Við viljum koma á framfæri hrósi til nemenda í 9. bekk en þau stóðu sig frábærlega í erfiðum aðstæðum í samræmdum prófum, bæði í íslensku prófinu á miðvikudaginn og enskuprófinu í morgun. Þau sýndu mikla yfirvegun og þolinmæði þegar tæknilegir erfiðleikar komu upp en slíkar aðstæður reyna töluvert á. Einnig má nefna að nemendur virtust vera vel undirbúnir og mættu tilbúnir til leiks. 

Með góðri kveðju,
skólastjórnendur og kennarar

Samræmd könnunarpróf í 9. bekk 2018

Ritað .

Dagana 7., 8. og 9. mars fara fram samræmd könnunarpróf í 9. bekk. Nemendur mæta í skólann klukkan 8:30 og prófið hefst klukkan 8:45. Afar mikilvægt er að nemendur séu mættir vel tímanlega til að forðast allt óþarfa stress. 

Próftíminn er frá 8:45 – 11:15 en lengdur próftími er frá 8:45 – 11:45. 

Miðvikudagurinn 7. mars - íslenskupróf
Að loknu prófi geta þeir nemendur sem eru í mataráskrift fengið sér hádegismat og mæta síðan í valgreinar samkvæmt stundarskrá kl. 14:20. 

Fimmtudagur 8. mars - stærðfræðipróf
Að loknu prófi geta þeir nemendur sem eru í mataráskrift fengið sér hádegismat og mæta síðan í kennslu samkvæmt stundarskrá eftir hádegi, frá 13:20.

Föstudagur 9. mars - enskupróf
Nemendur mæta eins og hina dagana klukkan 8:30. Að loknu prófi geta þeir nemendur sem eru í mataráskrift fengið sér hádegismat og mega svo fara heim. Kennsla fellur niður eftir hádegi þennan dag þar sem nemendur mættu fyrr. 

Atriði sem mikilvægt er að hafa í huga:
• Að nemendur séu mættir tímanlega þessa daga til að forðast óþarfa stress.
• Að nemendur séu búnir að borða góðan morgunmat áður en þeir mæta (þeir geta fengið hafragraut í skólanum) og séu vel úthvíldir. 
• Nemendur eiga að taka með sér yndislestrarbók til að lesa ef þeir klára prófið áður en prófatíma lýkur.
• Gott er að hafa með sér vatnsbrúsa í prófið og eitthvað smávegis nesti sem auðvelt er að grípa í (EKKI nammi eða sætindi).
• Í stærðfræðiprófinu þurfa nemendur að taka með sér góðan vasareikni, símar eru ekki leyfðir sem vasareiknar.
• Nemendur þurfa að slökkva á símum áður en þeir koma inn í prófið. Þetta er mjög mikilvægt til að ekki sé of mikið álag á nettengingu skólans meðan á rafrænu prófunum stendur
• Þeir nemendur sem hafa beðið um hljóðefni og lengdan próftíma í prófunum þurfa að mæta með góð heyrnatól ef þess er kostur. 

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |