Skip to content

Fyrsti skóladagurinn

Skólasetning
Í ár verður ekki hefðbundin skólasetning heldur byrja nemendur strax í skólanum og eru fullan skóladag mánudaginn 24. ágúst. Nemendur sem eru að byrja í 1. bekk hafa verið boðaðir í viðtöl/heimsókn ásamt foreldrum til umsjónarkennara mánudaginn 24. ágúst. Fyrsti venjulegi skóladagurinn hjá nemendum 1. bekkjar er því þriðjudaginn 25. ágúst.

Valgreinar 8.-10. bekkur
Opnað verður fyrir val á valgreinum þriðjudaginn 25. ágúst kl. 20:00. Foreldrar munu fá tölvupóst með slóð til að velja valgreinar. Nánari upplýsingar varðandi valgreinar verða sendar í tölvupósti fyrir skólabyrjun.

Covid-19 ráðstafanir
Vegna covid-19 þurfum við að takmarka umgengni fullorðinna í skólanum og eru því gestakomur takmarkaðar við nauðsynleg erindi. Við því hvetjum foreldra til að senda tölvupóst í staðinn á netfangið ingunnarskoli@rvkskolar.is eða hafa samband símleiðis, í síma 411-7828.

Símalaus skóli
Ingunnarskóli er símalaus skóli eins og síðastliðið skólaár og því eiga nemendur að skilja símana eftir heima eða hafa þá á hljóðlausri stillingu í skólatöskunni.

Matarskráning
Opnað verður fljótlega fyrir skráningar á nýjum nemendum í mat. Þeir nemendur sem voru í mat á síðasta skólaári verða sjálfkrafa í mat á þessu skólaári og nota sömu matarnúmer. Til að skrá nýja nemendur í mat þarf að fara í gegnum Rafræna Reykjavík – http://rafraen.reykjavik.is Sjá þar undir Umsóknir – Skóli og frístundir – Pöntun á skólamáltíðum. Sama leið er farin til að skrá nemendur úr mat.

Þegar búið er að skrá nýjan nemanda í mat fáið þið fjögurra stafa númer sem nemandinn stimplar inn þegar hann fær matinn. Eins og undanfarin ár bjóðum við nemendum upp á hafragraut á morgnana, kl. 8:00-8:30, frá og með mánudeginum 24. ágúst. Nemendur þurfa að mæta með vatnsbrúsa með sér í skólann. Einnig óskum við eftir að nemendur komi með nesti í fjölnota nestisboxum og munu þeir taka afgangsnesti með sér heim en með því móti geta foreldrar betur fylgst með hvað börn þeirra borða af nestinu.

Hjól og hlaupahjól
Aðstaða til að læsa hjólum og hlaupahjólum er á skólalóð. Hægt að geyma þau þar á yfir skóladaginn á ábyrgð foreldra og nemenda. Ekki er aðstaða til að geyma fararskjótana inni í skólanum.

Aðstandendaupplýsingar í Mentor
Mikilvægt er að aðstandendaupplýsingar í Mentor séu réttar og því þurfa foreldra/forráðamenn að uppfæra þær ef einhverjar breytingar hafa orðið á símanúmerum, netföngum o.s.frv. Aðstandendur geta gert þetta sjálfir í Mentor en líka er hægt að hafa samband við skrifstofu á netfangið ingunnarskoli@rvkskolar.is eða í síma 411-7828.

Umsjónarkennarar
Í vetur verða tveir umsjónarkennarar í hverjum árgangi sem halda utan um nemendahópinn saman og verða í tengslum við foreldra.

  1. bekkur Lára Eymundsdóttir og Matthildur Birgisdóttir
  2. bekkur Fjóla Kristjánsdóttir og Hugborg Erla Benediktsdóttir
  3. bekkur Linda Hrönn Steindórsdóttir og Signý Ingadóttir
  4. bekkur Berglind Snorradóttir og Sarah Jane Hamilton
  5. bekkur Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir og Ólafía Guðbjörg Gústafsdóttir
  6. bekkur Ellen Alfa Högnadóttir og Hjalti Einar Sigurbjörnsson
  7. bekkur Guðrún Þóra Bjarnadóttir og Regína Sigrún Ómarsdóttir
  8. bekkur Guðfinna A. Guðmundsdóttir og Lilja Unnarsdóttir
  9. bekkur Bjarni Sævar Þórsson og Erna Björg Guðlaugsdóttir
  10. bekkur Sigrún Karlsdóttir og Þuríður Aðalsteinsdóttir

Hægt er að finna upplýsingar um aðra starfsmenn og öll netföng starfsmanna á heimasíðu skólans.

Forfallatilkynningar
Veikindi eða stutt leyfi skulu forráðamenn eða aðstandendur tilkynna áður en kennslustund hefst og síðan daglega á skrifstofu skólans í síma 411-7828 eða á netfangið ingunnarskoli@rvkskolar.is . Einnig er hægt að tilkynna veikindi í gegnum foreldraaðgang í Mentor.

Opnunartími skólans og upphaf kennslu
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 7:45 – 14:30. Í hádeginu er skiptiborðið lokað milli kl. 12:00-12:45. Boðið verður upp á gæslu fyrir nemendur 1.-6. bekkjar frá kl. 8:00 inni á svæðum. Skólahúsnæðið opnar kl. 8:00. Kennsla hefst hjá öllum árgöngum klukkan 8:30 nema á föstudögum þegar nemendur byrja örlítið seinna.

Við hvetjum ykkur til að skoða heimasíðu skólans, www.ingunnarskoli.is til að fá frekari upplýsingar um skólastarfið. Við hlökkum til að hefja skólaárið og hitta ykkur öll hress og kát á mánudaginn 24. ágúst.