1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

Fjölmenningarstefna Ingunnarskóla

Stefna skólans er byggð á menntastefnu sem, birt er í aðalnámskrá grunnskóla 2011, en sú stefna er reist á sex grunnþáttum menntunar og einnig á nýrri fjölmenningarstefnu Reykjavíkurborgar fyrir grunnskóla (Menntasvið Reykjavíkurborgar, 2014) sem er unnið samkvæmt hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar og einstaklingsmiðaða kennsluhætti. Í fræðilegu samhengi var byggt á bókinni Fjölmenning og skólastarf (2010) í ritstjórn Hönnu Ragnarsdóttur og Elsu Sigríðar Jónsdóttur og verkefninu Fljúgandi teppi, menningarmót í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sem Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur staðið fyrir frá árinu 2008. 

Megininntak
Grunngildi skólans einkennast af virðingu, ábyrgð og vinsemd þar sem litið er á ólíkan bakgrunn nemenda sem auðlind. 

Hlutverk Ingunnarskóla er:

Að taka vel á móti nýjum nemendum sem hafa búið erlendis, að þeir skynji að þeir séu velkomnir og að þeir búi við öryggi.

Að allir nemendur njóti jafnra tækifæra og verði virkir þátttakendur á sem flestum sviðum skólastarfsins.

Að veita nemendum skólans bestu mögulegu tækifæri til að þroskast í fjölbreyttu og skapandi námsumhverfi. 

Að nemendur verði sjálfstæðir og skapandi, virkir og ábyrgir einstaklingar til að geta tekist á við síbreytilegt nútíma samfélag.

Að nemendur komi fram af virðingu hver við annan og alla sem þeir eiga samskipti við innan og utan skólans.

Að styrkur fjölmenningar verði nýttur til góðs fyrir skólasamfélagið.

 

Leiðarljós skólans

Lykillinn að íslensku samfélagi er kunnátta í íslensku, þekking á íslensku samfélagi jafnt og þekking og viðurkenning á gildi fjölbreytileika. Æskilegt er að námsbækur og önnur námsgögn, sem standa nemendum til boða, geti verið á erlendu tungumáli jafnt og íslensku. Það á sérstaklega við eldri nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eða koma hingað eftir langa dvöl í erlendum skóla.  

 

Skilgreining hugtaka í fjölmenningarstefnunni

Nýnemar 
Þegar talað er um nýnema er átt við börn sem flutt hafa til Íslands og dvelja á landinu tímabundið eða til frambúðar. Þau hafa annað móðurmál en íslensku, eru ýmist fædd erlendis eða hér á landi og eiga erlenda foreldra. Nýnemar geta líka verið börn íslenskra foreldra sem hafa búið erlendis í lengri eða skemmri  tíma.

Móðurmál
Móðurmál er það/þau tungumál sem talað/töluð eru af þeirri fjölskyldu sem barn elst upp hjá. Barn getur átt fleiri en eitt móðurmál.

Viðbótarmál
Viðbótarmál kallast það/þau tungumál sem barn lærir næst á eftir móðurmáli. Á Íslandi er íslenska annað/þriðja tungumál barna af erlendum uppruna.

Tvítyngd/fjöltyngd börn
Tvítyngdur einstaklingur talar tvö tungumál og fjöltyngdur er sá sem talar þrjú eða fleiri tungumál. Fram kemur í fjölmenningarstefnu borgarinnar „að stefnt skuli að virku tvítyngi hjá börnum“ þ.e. að börn öðlist færni til að viðhalda og efla móðurmál sitt um leið og þau ná árangri í íslensku.

 

Framtíðarsýn að meginstefnu skólans

Móttaka / fyrsta viðtal
Foreldrasamstarfið er fyrst um sinn milli foreldra, námsráðgjafa og umsjónarkennara.Í fyrsta viðtali við foreldra er boðið upp á túlkaþjónustu, þegar þörf krefur, en þó ávallt í samráði við þá. Foreldrar eru upplýstir um lög og reglur, sem gilda um réttindi barna og foreldra í íslensku samfélagi, veittar eru greinargóðar upplýsingar um eðli og tilgang skólastarfsins og kynnt sú stefna sem skólinn vinnur eftir. Sérstakt móttökueyðublað er fyllt út í viðtalinu.

Aðlögun
Það er erfið reynsla að byrja í skóla þar sem talað er annað tungumál en börnin þekkja og umhverfið e.t.v. framandi. Gera þarf ráð fyrir lengri aðlögunartíma fyrir þau börn sem ekki skilja íslensku og tryggja þeim móttöku og stuðning við hæfi.

Foreldrasamstarf 
Á fyrsta fundi eru foreldrar upplýstir um starfsemi skólans með aðstoð túlks. Skólinn leggur áherslu á að veita sem jafnast aðgengi að allri þjónustu og stuðningi með því að nýta sér túlkaþjónustu. Koma skal daglegum upplýsingum um starfsemi skólans og líðan barna á framfæri við foreldra eins og kostur er. Skólinn leggur til að nemandi á mið- og efsta stigi vinni í námsbókum á sínu tungumáli fyrstu mánuðina í náttúrufræði, samfélagsfræði og stærðfræði sé þess kostur. Æskilegt er að nemendur komi með bækur frá fyrri skóla. 

Skimun
Í viðtali við umsjónarkennara er metið hvort börn, með annað móðurmál, hafi náð nægilegum tökum á íslensku til að fylgja námsefni í sinni bekkjardeild. Efnið er að miklu leyti miðað við námsefni sem notað er í grunnskólum Reykjavíkur. Lagt er fyrir staðlaða stöðuprófið Milli mála sem kannar íslenskukunnáttu þeirra og hversu undirbúin þau eru til að takast á við íslenskt skólaumhverfi. Einnig er lagt fyrir einstaklingsmiðað skimunarpróf og Þríþætt mat og reynt að mæta nemendum þar sem þeir eru. Í lok fyrstu annar, er aftur skimun til að greina hvernig aðlögunarferlið hefur gengið og hvort frekari stuðningur við nemandann þurfi að koma til vegna örðugleika.

Fyrstu skóladagar/námsver
Nýnemar fara strax inn í bekk þar sem þeir eru kynntir og fá tvo nemendur sem eiga að fylgja þeim næstu daga. Næstu tvær vikur hittir umsjónarkennari nemandann í upphafi dags og útskýrir skipulag dagsins. Umsjónarkennari hittir síðan nemandann aftur í lok skóladags og fer yfir hvernig dagurinn hefur gengið. Nemendur, með annað móðurmál en íslensku, fá aðstoð kennara og unnið er samkvæmt einstaklingsnámskrá. Í lok þessara tveggja vikna er svo endurskoðað hversu mikla aðstoð nemandinn þarf. Æskilegt er að nemandi á mið- og efsta stigi getur unnið í námsbókum á eigin tungumáli og tekið þátt í íslenskunámi á eigin forsendum samkvæmt einstaklingsnámskrá en fylgi sínum jafnöldrum í enskunámi.

Framhald/heimanám
Nemendur í 8.-10. bekk geta mætt tvo tíma í viku í heimanámstíma skólans, sem eru undir leiðsögn kennara. Yngri nemendur geta fengið aðstoð við heimanám í lok skóladags. Aðaláherslur í námi verða á íslensku og stærðfræði en jafnframt verður unnið með hugtök samfélags- og náttúrufræðigreina sem undirbúning fyrir tímana sem þeir eru að fara í. Reynt er að undirbúa nemendur sem best fyrirfram í fámennum hópi heimanámstímanna þannig að þeir geti tekið virkan þátt með öðrum nemendum. Áhersla er lögð á að kanna hvar styrkleikar og áhugasvið nemanda liggja og kenna íslenskuna með það í huga.

Valfög-viðbótarmál
Nemendur, með annað móðurmál en íslensku, eiga að hafa val um að læra þriðja tungumál eins og dönsku. Þeir fá þá undanþágu sem getur fylgt þeim upp í framhaldsskóla. Jafnvel er möguleiki á að þeir geti fengið sitt móðurmál metið til eininga í framhaldsskóla.

Námsmat
Nýnemar, sem eru tvítyngdir eða hafa íslensku sem annað tungumál, eiga kost á að velja hvort þeir taka samræmd könnunarpróf eða fá aðlagað próf í staðinn. Jafnvel er gert ráð fyrir að þeir taki ekkert námsmat eða próf fyrr en eftir að ákveðnum aðlögunartíma lýkur. Þetta er ákvörðun sem verður tekin í samráði við foreldra.Vægi námsmats á fyrstu önn fyrir nemanda sem byrjar í 10. bekk í íslenskum skóla er skoðað með tilliti til framfara í námi.

Skólamenning
Ingunnarskóli tekur þátt í verkefninu Fljúgandi teppi, menningarmót í leik-, grunn- og framhaldsskólum í samvinnu við verkefnastjóra fjölmenningar Borgarbókasafns. Árlega eru haldin menningarmót fyrir nemendur í 5. og 9. bekk. Starfsfólk skólans heldur menningarmót fimmta hvert ár og foreldrar nemenda í 2. bekk halda menningarmót til að styrkja tengsl þeirra í árganginum. Verkefninu er ætlað að byggja brýr milli ólíkra menningarheima. Markmið verkefnisins eru:

Að skapa hvetjandi umhverfi, þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk geta hist og kynnst menningu hvers annars. 

Að stuðla að gagnkvæmri virðingu og skilningi.

Að skapa vettvang þar sem við getum undrast og hrifist af því, sem er líkt og ólíkt í menningu okkar.

Að hinir ólíku menningarheimar mætist í tónlist, dansi, myndlist, bókmenntum, kvikmyndum, matargerð, ævintýrum og goðsögnum, frásagnarlist, leiklist, leik og hreyfingu.

Að allir finni til stolts og gleði yfir eigin menningu og deili þeirri gleði og stolti með öðrum.

Að einstaklingar verði meðvitaðir um gildi eigin menningar við það að kynna hana fyrir öðrum.

Að þróa hæfileika barnanna til að geta tekið virkan þátt í samfélaginu  og gera sér ljóst að ólík menning geti auðgað eigin menningu.

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |