Skip to content

Reykjavíkurskákmót, sveit Ingunnarskóla varð í fjórða sæti í elsta flokki (8.-10. bekkur)

Mótið fór fram 3. og 4. febrúar í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur Faxafeni 12. Teflt var í þremur flokkum: 1.-3. bekk, 4.-7. bekk og 8.-10. bekk.

Ingunnarskóli sendi lið í öllum flokkum.

Í yngsta flokki kepptu 17 sveitir frá 11 skólum og tefldu 7 umferðir eftir svokölluðu Monrad-kerfi. Stúlknasveit Rimaskóla bar sigur úr býtum með 19 vinninga. Í öðru sæti varð A-sveit Háteigsskóla með 18 ½ vinning og þriðja A-sveit Langholtsskóla með jafn marga vinninga en færri stig.

Sveit Ingunnarskóla fékk 14 vinninga af 28 mögulegum eða 50% og 8 stig í 10. sæti; vann þrjár viðureignir, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur. Sveitina skipuðu Róbert Þór Ólason, Andri Fannar Gylfason, Elías Jökull Brynjuson og Heiðar Berg allir í 3. bekk. Prýðilegur árangur.

Á miðstigi (4.-7. bekkur) kepptu 25 sveitir frá 13 skólum og tefldu einnig 7 umferðir eftir Monrad-kerfi. A-sveit Rimaskóla sigraði með 20 vinninga eftir harða keppni við A- sveit Landakotsskóla sem lenti í öðru sæti með 19 ½ vinning og A-sveit Háteigsskóla sem varð þriðja með 19 vinninga.

Sveit Ingunnarskóla fékk 13 vinninga af 28 mögulegum eða 46% og 7 stig í  16. sæti; vann þrjár viðureignir, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur.
Sveitina skipuðu Hersir Jón Haraldsson 5. bekk, Hilmar Ingi Agnarsson 4. bekk, Brynja Sif Gísladóttir 4. bekk og Breki Rafn Ólafsson 5. bekk.
Ágætis árangur hjá þessu unga liði en í það vantar tifinnanlega einhverja skákmenn í 6. og 7. bekk.

Á elsta stigi (8.-10. bekkur) kepptu 9 sveitir frá 8 skólum og tefldu 7 umferðir eftir Monrad-kerfi. Ölduselsskóli vann nokkuð örugglega með 23 vinninga. Í öðru sæti varð Hlíðaskóli með 20 ½ vinning og þriðja A-sveit Laugalækjarskóla með 19 ½ vinning.

Ingunnarskóli sendi óvænt lið til keppni og má þakka það harðfylgi Gunnars Freys skákkennara. Hann fékk þá Magnús Hjaltason og Jón Hreiðar Rúnarsson „gamla“ snillinga í 9. bekk til að rifja upp gamla takta. Þeir, ásamt Hersi Jóni og Breka Rafni skipuðu sveitina sem náði ljómandi góðum árangri. Hún lenti í 4. sæti með 17 ½ vinning af 28 mögulegum eða 62,5%; vann fimm viðureignir og tapaði tveimur. Magnús fór fyrir sínu liði og hreppti 6 ½ vinning af 7 mögulegum og varð efstur fyrsta borðs manna í mótinu. Glæsileg frammistaða!

Mótið fór vel fram og var öllum keppendum Ingunnarskóla til sóma. Þá voru margir foreldrar meðal áhorfenda og studdu við bakið á börnum sínum og hvöttu þau til dáða.

Skákkennarar