1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

Skólareglur

Í reglugerð nr.2702. gr.2 (2000) um skólareglur segir:

Hver grunnskóli skal setja sér skólareglur sem skylt er að fara eftir. Skólastjóri, kennarar og aðrir starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra skulu í sameiningu kosta kapps um að starfsandi og skólabragur í skólanum sé sem bestur og eiga skólareglur að stuðla að því. Forsendur góðs starfsanda eru vellíðan, gagnkvæmt traust, virðing og samábyrgð allra í skólasamfélaginu.

Einkunnarorð Ingunnarskóla eru:
VIRÐING – ÁBYRGÐ – VINSEMD

Skólareglur Ingunnarskóla skiptast í fimm flokka. Þær gilda alls staðar þar sem nemendur eru á vegum skólans.

1. Almennar skólareglur

2. Viðurlög við brotum á skólareglum.

3. Aðstæðubundnar reglur

4. Reglur sem styðja við jákvæða hegðun 

5. Punktakerfi (mætingar- og ástundunarkerfi).

Reglur Ingunnarskóla eru endurskoðaðar einu sinni á ári. Þær eru unnar í samvinnu við kennara og skólaráð og eru aðgengilegar á heimasíðu skólans. Foreldrar eru hvattir til að fara yfir reglurnar með börnum sínum.

Almennar skólareglur

1. Háttvísi: Nemendur skulu ávallt leitast við að koma fram af prúðmennsku og háttvísi í skólanum og annars staðar þar sem þeir eru á hans vegum. Nemendum ber að fara eftir fyrirmælum starfsmanna skólans og virða skólareglur. Allt ofbeldi hvort sem er með orðum eða gjörðum er ekki samþykkt. 

2. Umgengni: Áhersla er lögð á góða umgengni innan dyra og utan. Í Ingunnarskóla berum við virðingu fyrir eignum skólans og annarra. Ætlast er til þess að nemendur gangi hljóðlega um skólabygginguna.

3. Stundvísi/mætingar: Nemendur skulu mæta stundvíslega með þau gögn sem nota skal hvern dag og sinna hlutverki sínu af ábyrgð.

4. Fatnaður, nesti og frímínútur: Nemendur skulu vera klæddir eftir veðri. Nemendur í 1.-7. bekk fara út í frímínútur dag hvern. Nemendum í 8.-10. bekk er heimilt að fara út af skólalóð á skólatíma en skólareglur gilda. Nemendur hafi með sér hollt nesti í skólann. Mælst er til að nemendur komi með ávexti og grænmeti í morgunnesti. Sælgæti, gos eða orkudrykki má ekki hafa um hönd í skólanum né í ferðum á vegum skólans nema það sé sérstaklega tekið fram. Öll neysla matar og drykkja í kennslurýmum unglinga er óheimil.

5. Reykingar (þar á meðal rafrettur), áfengi og aðrir vímugjafar: Reykingar eru bannaðar á skólatíma og alls staðar þar sem nemendur eru á vegum skólans, s.s. á skólaskemmtunum, í vettvangsferðum og í skólaferðalögum. Í skólanum er notkun og meðferð áfengis og vímuefna stranglega bönnuð og gildir það einnig á skemmtanir, í öllum ferðum og í allri starfsemi á vegum skólans.

6. Tæki: Tölvubúnaður Ingunnarskóla er eign skólans og fyrst og fremst ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annars er samræmist markmiðum skólans. Nemendum er óheimilt að nota GSM síma í kennslustundum, I-pod, geislaspilara, leikjatölvur eða sambærileg tæki nema í undantekningartilvikum í samvinnu við kennara.

7. Hjól: Notkun hjóla, hlaupahjóla, hjólabretta, línu- og eða hjólaskauta og hjólaskóa er bönnuð á skólalóðinni á skólatíma kl. 8–17. Leyfilegt er að koma á hjóli í skólann og er það á ábyrgð hvers og eins. Hjólagrindur eru á lóð skólans og geta nemendur læst hjólum þar. Forráðamenn bera ábyrgð á því að börn þeirra noti reiðhjólahjálma og annan öryggisbúnað. Nemendur fara ekki i hjólreiðaferðir á vegum skólans nema með hjálm.

8. Hættuleg tæki og tól: Bannað er að koma með eldfæri og hvers kyns hluti sem beita má sem vopnum í skólann.

9. Skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum og fjármunum nemenda. Æskilegt er að verðmæti séu skilin eftir heima.

10. Kennurum einstakra námshópa er frjálst að setja sérstakar umgengis- og samskiptareglur í samráði við nemendur.

Viðurlög við brotum á skólareglum.

Í Ingunnarskóla er leitast við að hafa skýr og fyrirsjáanleg viðbrögð við brotum á skólareglum. Óæskilegri hegðun hefur verið skipt upp í þrjú stig eftir alvarleika brotsins.

Brot eru skráð í dagbók nemenda í Mentor. Skráningin auðveldar starfsfólki skóla og foreldrum / forráðamönnum að hafa yfirsýn yfir fjölda hegðunarfrávika, hvar þau verða og hvenær. Skýrt er kveðið á um hvaða afleiðingar eru við hverju broti.

1. stigs hegðunarfrávik

Dæmi um 1. stigs hegðunarfrávik:

·         Þras / ögrun / rifrildi

·         Trufla afhafnir, leiki eða vinnu annarra

·         Ganga illa um

Framkvæmd og eftirfylgni

·         Starfsmaður ræðir einslega við nemanda.

·         Nemanda er leiðbeint og lögð er áhersla á að hann þekki regluna og sýni vilja til þess að gera betur næst.

·         Lögð er áhersla á virðingu og að starfsmaður hrósi nemanda fyrir samvinnu.

Ef nemandi hefur ítrekað sýnt 1. stigs hegðunarfrávik samsvarar það 2. stigs hegðunarfráviki og skal framfylgt samkvæmt því.

2. stigs hegðunarfrávik (sjá nánar ferla)

Dæmi um 2. stigs hegðunarfrávik

·         Særandi eða niðrandi orðbragð, hæðni

·         Neitar að fylgja fyrirmælum

·         Ósannsögli, svik, svindl

·         Áreitni, hrekkir, stríðni

Framkvæmd og eftirfylgni

·         Kennari hefur samband við foreldra/forráðamenn og skráir atvikið í Mentor. Ef nemandi sýnir ekki bætta hegðun fljótlega boðar umsjónarkennari foreldra/ forráðamenn til fundar og lausna er leitað.

·         Ef nemandi hefur ítrekað sýnt 2. stigs hegðunarfrávik samsvarar það 3. stigs hegðunarfráviki og skal fylgt eftir samkvæmt því.

Brottvísun úr kennslustund
Í Ingunnarskóla er kennara heimilt að víkja nemanda úr kennslustund ef hann hefur valdið verulegri truflun og ekki látið segjast við áminningu. Nemanda í 6. – 10. bekk er vísað á skrifstofu skólans þar sem hann bíður kennarans en yngri nemendur verða í umsjá starfsmanna skólans.

Sjái kennari fram á að nemandi muni þurfa að bíða lengi skal nemanda fundin námsaðstaða annars staðar en inni í bekk þar til mál hans er tekið til úrlausnar. Mál hans skal leyst samdægurs. Viðkomandi kennari gerir upp málið við nemandann og upplýsir umsjónarkennara um það. Viðkomandi kennari hefur samband við foreldri / forráðamenn. Við brottvísun fær nemandi 4 punkta skv. punktakerfi skólans. Mál nemenda sem halda áfram að valda öðrum ónæði og óþægindum í kennslustundum og frímínútum þrátt fyrir ítrekuð tilmæli starfsfólks skólans eru tekin til umfjöllunar á nemendaverndarráðsfundi og leitað úrlausna i samvinnu við forráðamenn og fagfólk.

3. stigs hegðunarfrávik (sjá nánar ferla)

Hér er um að ræða alvarleg hegðunarfrávik sem stofna öryggi og vellíðan nemenda og/eða starfsfólks í hættu og leiðir til truflunar á eðlilegu skólastarfi. Ólögleg hegðun er tilkynnt lögreglu.

Dæmi um 3. stigs hegðunarfrávik:

·         Ofbeldi

·         Slagsmál

·         Ógnandi hegðun, áhættuhegðun og alvarlegar ögranir

·         Þegar nemandi fær annan til að brjóta af sér eða beita ofbeldi

·         Skemmdarverk

·         Þjófnaður og nýta búnað ófrjálsri hendi

·         Meðferð vopna og eldfæra

·         Notkun ávana- og/eða fíkniefna þar með talið áfengi, tóbak og rafrettur.

·         Þegar nemandi hvetur annan eindregið til að brjóta af sér eða beita ofbeldi í krafti aldurs- eða þroskamunar.

Framkvæmd og eftirfylgni
Ef 3. stigs hegðunarfrávik á sér stað vísar starfsmaður nemanda samstundis og án umræðu til skólastjórnenda. Skólastjórnandi tekur ákvörðun um farveg málsins. Skólastjórnandi skráir málið og úrvinnslu þess í dagbók nemanda í Mentor og gerir umsjónarkennara grein fyrir úrvinnsluferlinu eins fljótt og unnt er.

·         Þegar nemandi hefur orðið uppvís að einhverju framantöldu er hann tekinn úr aðstæðum og haft samband við foreldra eins fljótt og unnt er. Áhersla er lögð á að fundað sé með foreldrum og barni í upphafi næsta skóladags. Nemandi fer ekki inn í bekk fyrr en fundað hefur verið og málið til lykta leitt.

·         Skólastjóra er heimilt að vísa nemenda tímabundið úr skóla vegna 3. stigs hegðunarbrots án áminningar í tvennum tilgangi, annars vegar til að undirstrika alvarleika brotsins og hins vegar til þess að undirbúa lausnarmiðaðan fund með nemanda og foreldrum og þess fagfólks sem þurfa þykir. Oft eru dýpri ástæður að baki en foreldrar og starfsfólk áttar sig á. Sumum hegðunarfrávikum vísar skólastjóri til Þjónustumiðstöðvar Árbæjar, til Menntaráðs eða til barnaverndaryfirvalda. 

·         Ef nemandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla meðan leitað er úrlausna á hans málum. Foreldrum / forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum er tilkynnt tafarlaust um ákvörðun skólastjórnenda. Við vinnslu máls verður farið eftir verklagsreglum borgarinnar sem fjalla um viðbrögð við skólasóknar- og ástundunarvanda nemanda, viðbrögð við lögbrotum og alvarlegum brotum nemenda á skólareglum, ferils mála vegna brota á skólareglum, ofbeldi og lögbrotum.

·         Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.

·         Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna. Nemanda ber að bæta það tjón sem hann veldur.

Verði ágreiningur milli forráðamanna og skólans varðandi málefni nemanda og ekki næst samkomulag um úrlausnir getur hvor aðili um sig vísað málinu til skólayfirvalda.

Aðstæðubundnar reglur.

GSM símar og sambærileg tæki
Í kennslustundum á skilyrðislaust að vera slökkt á farsímum og þeir eiga að vera geymdir í töskum. Sömu reglur eiga við hvers kyns leiktæki. Sé nemandi staðinn að því að svara og tala i farsímann eða valda truflun í kennslustundum (t.d. ef sími hringir, sms-skilaboð móttekin o.s.frv.) gildir eftirfarandi ferli. Sama gildir um sambærileg tæki sem einungis má nota í frítíma (s.s. frímínútum og eyðum).

Ef nemendur virða ekki þessar reglur fer málið í ferli samkvæmt agaferlum skólans.

Tölvur

·         Tölvubúnaður Ingunnarskóla er eign skólans og fyrst og fremst ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annars er samræmist markmiðum skólans.

·      Hver nemandi við skólann hefur eigið notandanafn og netfang hjá skólanum og er ábyrgur fyrir allri notkun þess og er óheimilt að veita öðrum aðgang að því. Hann verður að muna að skrá sig út í hvert skipti sem hann yfirgefur sína vinnutölvu.

·         Meðferð hvers konar matvæla og drykkjarfanga er bönnuð nálægt tölvum skólans. 

·         Skólinn áskilur sér rétt til að fara yfir, skoða og eyða gögnum á gagnasvæðum nemenda til að tryggja að reglum um notkun búnaðarins sé fylgt.

·         Nemendum er ekki heimilt að koma með fartölvur í skólann nema með samþykki kennara eða stjórnenda skólans. Það er óheimilt að tengja fartölvur nemenda við net skólans.

·         Að senda keðjubréf og annan ruslpóst.

·         Að nota spjallrásir nema undir stjórn kennara.

·         Að hlusta á tónlist, útvarp eða horfa á sjónvarp í gegnum netið nema það sé lagt fyrir sem námsefni af kennara eða með leyfi hans.

Verði nemendi uppvís af einhverju neðangreindu varðandi flokkast það sem 3. stigs hegðunarbrot og viðurlög í samræmi við það. Ef nemandi veldur skemmdum á búnaði ber hann ábyrgð á því að bæta tjónið.

·         Að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem nemandi hefur fengið úthlutað.

·         Að nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða tölvur í eigu annarra.

·        Að gera breytingar eða hafa áhrif á uppsetningar eða skjáborð tölvu, svo sem að fjarlægja eða breyta kerfisskrám, breyta bakgrunni, táknmyndum eða skjáhvíld, ekki   er heimilt að hafa áhrif á umhverfi og notkunarmöguleika annarra notenda.

·         Að breyta, afrita eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn sem eru í eigu skólans.

·         Að setja inn hugbúnað á tölvur skólans án samþykkis kennara eða tölvuumsjónarmanns.

·         Að senda, sækja eða geyma efni sem er ólöglegt eða bersýnilega grefur undan almannaheill. Sem dæmi má nefna klám, kynþátta-, hryðjuverka- og ofbeldisáróður.

Nemendaferðir
Skólareglur Ingunnarskóla gilda i öllum ferðum.

·        Hafi málum nemanda verið vísað til skólastjóra vegna brota á skólareglum er það ákvörðun skólastjórnar í samráði við umsjónarkennara hvort viðkomandi nemandi fær heimild til þátttöku í ferð á vegum skólans.

·       Komist nemandi af einhverri ástæðu ekki með í skipulagðar vettvangs- eða nemendaferðir er honum ætlað að mæta í skólann til annars skólastarfs.

·        Gerist nemandi sekur um brot á skólareglum eða landslögum þar sem hann er á vegum skólans verður hann sendur heim á kostnað foreldra / forráðamanna sinna. 

Prófreglur

·         Nemendur skulu forðast að valda truflun á próftíma. Rétta ber upp hönd þurfi nemandi að ná sambandi við kennara.

·         Samtöl eða samskipti milli nemenda eru óleyfileg meðan á prófi stendur svo og notkun óleyfilegra hjálpargagna. Svindl er ekki liðið.

·         Þegar nemandi hefur lokið prófi skal nemandi sitja þar til hann færi leyfi til að yfirgefa stofuna. Hann skal leitast við að valda sem minnstri truflun.

Brot á prófreglum geta varðað brottrekstri úr prófi. Komi til brottvísunar fær sá nemandi einkunnina 0 í prófinu og skal skólastjórn tilkynnt um málið. Umsjónarkennari skal tilkynna foreldrum / forráðamönnum komi til brottvísunar  nemanda úr prófi. Mæti nemandi ekki til prófs án löglegra forfalla fær hann einkunnina 0 fyrir prófið.

Þessar reglur gilda um öll próf, þ.á.m. einstaklingspróf sem tekin eru í skólanum.

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |