1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

Starfshættir

Við hönnun Ingunnarskóla var lögð áhersla á nám í stað kennslu og var nám nemenda haft í brennidepli. Mikil áhersla var lögð á samvinnu, sjálfstæði, sköpun, samþættingu og tengsl við grenndarsamfélagið. Skólinn er stofnaður haustið 2001 og hóf starfsemi sína í færanlegum kennsluhúsum. Kennsla hófst í nýrri byggingu haustið 2005.

Í Ingunnarskóla eru mikil tengsl við nánasta samfélag skólans og umhverfi. Skólinn er staðsettur í hverfi þar sem stutt er í skemmtilega náttúru sem nýtt er í daglegu starfi og leik. Áhersla er lögð á útikennslu sem samþætt er í allar greinar. Skólinn er þátttakandi í verkefninu um Grænfánann en í því verkefni er lögð áhersla á ábyrga hegðun gagnvart umhverfinu, innan skólans sem utan. Mikið er lagt upp úr því að nemendur þekki heimahverfið, stofnanir, félagssamtök, helstu kennileiti, sögu hverfisins og eigi gott samstarf við grenndarsamfélagið. Samstarf er við ÍTR um starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar. Tónlistarskóli Árbæjar og kennari frá Skólalúðrasveit Grafarvogs starfa í skólanum bæði fyrir nemendur og almenning, bæði innan og utan skólatíma. Vatnstankar Orkuveitu Reykjavíkur eru ákveðið kennileiti við skólann og er einn dagur að hausti tileinkaður vinnu og fróðleik í tengslum við þá.

Einstaklingsmiðun
Nemendur læra ekki allir það sama á sama tíma heldur fást þeir við ólík viðfangsefni eða nálgast sama viðfangsefnið á ólíkan hátt. Hver og einn vinnur á eigin hraða, einstaklingslega, í paravinnu eða hópvinnu. Talsverð áhersla er lögð á ábyrgð nemenda á eigin námi, að virkja áhuga þeirra og að þeir séu virkir þátttakendur.

Með einstaklingsmiðun er verið að mæta þörfum einstaklings eða lítils hóps. Í stórum hópi eru alltaf einhverjir sem þurfa að hafa mikið fyrir því að komast í gegnum námsefnið en aðrir hafa minna fyrir því. Í skólanum fylgir meginþorri nemenda sömu áætlun en áhersla er á að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti sem gefa nemendum kost á námi við hæfi. Þessu er m.a. mætt með því að vera með fjölbreytt verkefni á stöðvum til að dýpka þekkingu og áhuga á náminu. Nemendur geta farið í mismunandi verkefni á stöðvum þegar tækifæri gefst til.

Í skólanum er áhersla á að bregðast við þörfum hvers nemanda. Kennarinn metur hvers nemandinn þarfnast og hvort viðkomandi fái nám við hæfi. Athyglinni er beint að því hvort nemandinn þurfi að þjálfa samskiptahæfni með meiri hóp- eða samvinnu og hvort hann þurfi sérstuðning á einhverju sviði. Þegar þörfin hefur verið metin er lögð áhersla á að viðkomandi fái viðfangsefni við hæfi.

Sérkennsla er stuðningur við nemanda eða nemendahópa sem þarfnast tíma¬bundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri eða skemmri tíma, jafnvel alla skólagönguna.

Mikill þroskamunur getur verið á einstaklingum innan hvers árgangs og einnig er verulegur munur á einstökum þroskaþáttum hvers barns. Í sérkennslunni er reynt að koma til móts við þennan þroskamun ýmist með kennslu í litlum hópum, einstaklingskennslu eða með aðstoð inni í bekk. Gerðar eru einstaklingsnámskrár fyrir nemendur þegar þörf er á því.

Stundum er þörf á því að leggja áherslu á undirstöðuþætti námsefnis og er námsefnið því stundum stytt og einfaldað tímabundið. Þegar þessi leið er valin er útbúin einstaklingsnámskrá í samráði við nemanda og foreldra.

 

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |