1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

Þróunarverkefni

Ingunnarskóli hefur fengið styrki til að innleiða og þróa eftirtalin verkefni bæði frá Menntasviði Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytinu.

2002  Þróun kennsluhátta, einstaklingsmiðað nám
2003  Þróunarverkefni í list- og verkgreinum (með áherslu á samþættingu listgreina við aðrar námsgreinar).
2004  Positve behavior support (stuðningur við jákvæða hegðun í skóla 1. ár)
2004  Þemavinna - mat - verkefnaval. Þróun breyttrar kennsluhátta í listgreinakennslu.
2004  Heiltækt og greinandi námsmat í Ingunnarskóla
2005  Stuðningur við jákvæða hegðun í skóla (Positive Behaviour Support) - 2. ár
2005  Þróun breyttra kennsluhátta í listgreinakennslu. Þemavinna - Mat - Verkefnaval - 2. ár
2005  Heildtækt og greinandi námsmat í Ingunnarskóla
2006  Þróun námssvæða í Ingunnarskóla (Lilja Ármannsdóttir)
2006  Áhugatengt námsval nemenda í 9. og 10. bekk Ingunnarskóla
2006 - 2009  Námsmat í einstaklingsmiðuðu námi (í samvinnu með Norðlingaskóla)
2010  Læsi
2011  Hávamál í nútíð og fortíð
2012  Fjölbreytt námsmat
2012  Lýðræðislegt samfélag
2013  Samþætting og fjölbreyttir kennsluhættir á unglingastigi
2013  Endurskoðun skólanámskrár Ingunnarskóla - Innleiðing nýrrar aðalnámskrár
2014  Þróun kennsluhátta í samkennslu og teymiskennslu í opnum rýmum
2014  Eflum læsi á öllum skólastigum í öllum greinum
2015 Menntabúðir í Ingunnarskóla 
2015 Stöðvavinna í Ingunnarskóla með áherslu á læsi og náttúrugreinar 
2016 Þróun kennsluhátta í takt við áherslur á 21. öldinni
2016 Stöðvavinna í Ingunnarskóla 
2016 Fjölbreyttir kennsluhættir í læsi og stærðfræði 
2016 Aukin virkni nemenda á bekkjarfundum

Hér fyrir aftan er lýsing á nokkrum þessara verkefna

Listgreinar
Árin 2003–2006 fékk Ingunnarskóli styrki frá Menntasviði Reykjavíkur til þróunar í list- og verkgreinakennslu. Aðaláhersla var lögð á þrjá þætti, þ.e. þemavinnu, verkefnaval og námsmat. 
Í þemavinnu var unnið að þróun kennsluhátta og kennslugagna þar sem listgreinar tengjast öðrum námsgreinum.
Hvað varðar námsmat hefur verið unnið að þróun námsmatskerfis í tengslum við þemaverkefni þar sem öll þau verkefni, bæði hjá umsjónarkennurum og listgreinakennurum, sem tengjast tilteknu þema, eru skoðuð í samhengi og ein heildareinkunn gefin í lokin.
Í verkefnavali felst að nemendur í 7.–8.bekk geta sjálfir valið sér verkefni í myndmennt, textíl og smíði. Hugmyndalisti liggur fyrir en nemendur hafa algjörlega frjálsar hendur um val sitt svo framarlega sem aðstæður innan skólans leyfa.

PBS
Menntasvið veitti skólanum styrki skólaárin 2004–2006 til að innleiða PBS-agakerfi. PBS er heildstætt agakerfi sem ætlað er að styðja skóla við að koma á góðum og jákvæðum aga. Tilgangur PBS er að skapa gott skólastarf með því að taka á hegðun með jákvæðum og kerfisbundnum hætti í stað þess að einblína á neikvæða hegðun og refsingar. Kerfið miðar að því að allir stafsmenn skóla komi að mótun og viðhaldi æskilegrar hegðunar í skóla. Kenningarlegur grunnur PBS er í atferlisstefnu og rætur sínar að rekja til Oregon University þar sem margir af virtum fræðimönnum innan atferlisfræðinnar stunda rannsóknir sínar.

Námssvæði
Um var að ræða þróun námssvæða í tengslum við einstaklingsmiðað nám í opnum rýmum í Ingunnarskóla. Markmið verkefnisins var að gera nemendur meðvitaða um eigin kunnáttu og ekki síður að koma til móts við þá með fjölbreyttum verkefnum. Mikilvægt er að verkefni á námssvæðunum komi til móts við alla. Mörgum hentar t.d. að þjálfa stafsetningu eina og sér eins og vísindagrein s.s. stærðfræði, en öðrum hentar að nýta ritun eða annars konar verkefni. Með verkefninu var reynt að koma til móts við alla nemendur og lögð áhersla á að námssvæðið yrðu aðgengilegt og verkefnin áhugaverð og hvetjandi.

Námsmat
Skólinn fékk styrk frá menntamálaráðuneytinu skólaárið 2004–2005 og framhaldsstyrk 2005–2006 til að þróa einstaklingsmiðað námsmat. Í Ingunnarskóla hefur verið unnið að því að koma á heildstæðu og greinandi námsmati með áherslu á marklista, samræmt frammistöðumat og ferilsmöppur. Frammistöðumat hefur verið notað í þemum af umsjónarkennurum og list- og verkgreinakennurum með góðum árangri. Nemendur vinna samkvæmt einstaklings¬áætlunum í íslensku og stærðfræði. Námsefninu er stigskipt og áhersla er á símat. Kennarar í Ingunnarskóla og Sæmundarseli hafa unnið marklista þannig að með námsmatinu kemur fram hvað viðkomandi nemandi kann eða kann ekki. Næsta skólaár munu allir nemendur Ingunnarskóla og Sæmundarsels hefja notkun ferlismappa.

Móðurskóli í einstaklingsmiðuðu námsmati
Menntasvið Reykjavíkur veitti Ingunnarskóla styrk til að verða móðurskóli í einstaklings¬miðuðu námsmati haustið 2006, ásamt Norðlingaskóla. Skólarnir eiga margt sameiginlegt og geta stutt hvor annan í þeirri skólaþróunarvinnu sem framundan er þegar námsmatsstefna skólanna verður mótuð. Byggt verður upp í skólunum heildrænt einstaklingsmiðað námsmatskerfi sem verður samsett úr fjölbreyttum aðferðum og nálgunum. Hluti af verkefninu verður að sjá um kynningar enda er litið svo á að það auki gildi verkefnisins að sú mikla vinna sem leggja þarf af mörkum geti nýst sem flestum skólum sem hug hafa á því að taka upp einstaklingsmiðaða starfshætti.

Áhugaval í 9.–10. bekk
Í aðalnámskrá grunnskóla bls. 30 (almennur hluti) segir: „Í 9. og 10. bekk er gert ráð fyrir að einstakir skólar skipuleggi tæplega 30% heildartímans. Ætlast er til að í þessum bekkjum sé nemendum gefinn kostur á að velja námsgreinar og námssvið. Tilgangurinn með auknu valfrelsi nemenda er að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og gera hverjum og einum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.“ Síðastliðna þrjá vetur hafa nemendur í 7.–8. bekk fengið að velja sér viðfangsefni í listgreinum út frá eigin áhugasviði. Þetta hefur skilað góðum árangri, nemendur hafa sýnt þessu áhuga og eru greinilega fúsari í slíka vinnu. Því er mikill vilji innan skólans að þróa val nemenda í 9.–10. bekk og einnig 6. – 7. bekk í Ingunnarskóla á sama hátt. Nemendur velja sér viðfangsefni út frá áhugasviði, skipuleggja hvernig að verkefninu skuli staðið, útfærslu og skilum. Hefð er fyrir því að nemendur í 9.–10. bekk fari í starfskynningar og ætlunin er að áhugasviðsverkefnin munu tengist þeim.
 

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |