1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

Tónlistarskóli Árbæjar

Tónlistarskóli Árbæjar er tónlistarskóli sem starfar inni í grunnskólum í Árbæjarhverfi.  Kennsla á vegum Tónlistarskóla Árbæjar  hefur farið fram innan Ingunnarskóla síðan 2006. Nemendur tónlistarskólans fara úr kennslustund, í samráði við kennara sína í grunnskólanum og stunda því námið á skólatíma. Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér hagræði fyrir foreldra og fjölskyldur, minnkar skutlið fram og til baka um borgina og tímarnir fara fram á þeim tíma dagsins að nemendur eru betur upplagðir til að stunda tónlistarnám heldur en síðla dags, sér í lagi fyrir yngri nemendur. 

Gefum skólastjóra Tónlistarskóla Árbæjar Stefáni S. Stefánssyni orðið:  

,,Við höfum verið að þróa þetta samstarf á hverju ári. Í góðu samstarfi við skólastjóra og kennara grunnskólanna er þetta hægt og hefur gefist vel.  Það má til dæmis geta þess að við erum fyrsti tónlistarskólinn til að bjóða upp á tónfræði í fjarkennslu, fyrirkomulag sem margir nemendur okkar hafa nýtt sér með góðum árangri.  Við erum að þróa þetta starf okkar enn frekar og sífellt bætast við nýjar leiðir til að betrumbæta kennsluhætti.”

Tónlistarskóli Árbæjar starfar nú í þremur grunnskólum auk þess að kenna í Krókhálsi 5: Ingunnarskóla, Norðlingaskóla og Selásskóla. 

En hvernig fer kennslan fram? 

,,Við bjóðum upp á fjölbreytt kennslufyrirkomulag til að mæta þörfum nemenda. Sumir vilja prófa hvort tónlistarnám er eitthvað fyrir þá aðrir vija stunda námið af kappi og þreyta opinber próf. Við kennum samkvæmt aðalnámskrá menntamálaráðuneytisins. Námskráin er afar sveigjanleg. Þetta er ekki bara klassísk tónlist og að spila eftir nótum. Það er kennarans að finna út hvar áhugasvið nemandans liggur og hefja svo námið innan þess ramma. Þannig eru krakkar að læra Bach jafnt og Bítlana. Aðalatriðið er að námið sé innihaldsríkt og skemmtilegt. Það er þó þannig, eins og það hefur alltaf verið, að árangur í tónlistarnámi fer fyrst og fremst eftir heimaæfingum og ástundun nemandans og kemur þar stuðningur fjölskyldunnar sterkt inn.” 

En hvað er kennt við Tónlistarskóla Árbæjar? 

,,Við kennum  á öll helstu hljóðfæri.  Píanó, gítar, þverflautu, saxófón, trommur, bassa og söng.  Við erum einnig með forskóla og námsleiðir fyrir yngri börn og samspilshljómsveitir sem m.a. tóku þátt í Nótunni, keppni tónlistarskólanna. Við reynum að hafa námsframboðið fjölbreytt og umfram allt skemmtilegt!”

Núna standur yfir skráning í spennandi hópnámskeið fyrir píanó, gítar, söng, þverflautu og klarínett. Skoðið betur hér.  

Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um Tónlistarskóla Árbæjar er bent á heimasíðu skólans: www.tonarb.net 

Sótt er um skólavist á Rafrænni Reykjavík eða beint til skólans. 

 

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |