1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11

Valgreinar 8., 9. og 10. bekkur

Almennar upplýsingar

Nemendur í 9.-10. bekk eru í þrem valgreinum á hvorri önn.

Mætingarskylda er í valgreinar jafnt og í öðrum greinum.

Nemendur verða að reikna með heimaverkefnum og kröfum um verkefnaskil í öllum valgreinum.  Í sumum valgreinum er lokapróf. 

Áhersla er lögð á að nemendur velji valgreinar í samráði við foreldra.

Mikilvægt er að nemendur vandi val sitt og séu meðvitaðir um inntak þeirra valgreina sem þeir kunna að velja. Því er mælt með að nemendur afli sér sem bestra upplýsinga um valgreinar og ræði við námsráðgjafa ef um einhver vafaatriði er að ræða.

Valgreinar eru kenndar ýmist allan veturinn eða fyrir og eftir jól (tveggja anna kerfi).

Ákveðið hefur verið að gefa nemendum í 8. bekk kost á að velja sér viðfangsefni í list- og verkgreinum út frá áhugasviði sínu. Þetta er svokallað bundið val í list- og verkgreinum og verða allir nemendur í 8. bekk að velja fjórar greinar af fimm sem í boði eru eftir áhuga.

Hver nemandi í 8. bekk fer í eina grein í bundnu vali á hvorri önn og tvær í frjálsu vali.

Skólinn býður upp á nám í ákveðnum valgreinum - frjálsu vali. Ef nemandi velur sér ákveðna valgrein til að læra næsta vetur þá leggur hann markmiðssetningu í hendur kennarans og fer eftir fyrirkomulagi sem hann setur. Til að boðið verði upp á valnámskeið þurfa a.m.k. 15 nemendur að velja það.

Í frjálsum valgreinum verður nemendum úr 8., 9. og 10. bekk blandað saman.

Af gefnu tilefni skal nemendum bent á að hver og einn velur sér þá leið í námi sem hann telur henta sér best. Varist því að velja með það í huga að gera eins og besti vinurinn eða vinkonan. 

Það skal tekið fram að aðstæður geta valdið því að ekki verði unnt að verða við öllum óskum nemenda og vegna skipulagningar á smiðjum getur nemandi ekki breytt vali eftir að skóli hefst að hausti.  Til að boðið verði upp á valgrein þurfa a.m.k. 15 nemendur að velja hana.

Vinsamlegast athugið að valgreinin getur verið kennd allt árið eða einungis fyrir eða eftir jól. Það kemur fram í yfirliti yfir valgreinar.

Tómstundariðkun metin

Nemendur geta óskað eftir að fá tómstundarval metið sem samsvarar tveimur eða fjórum stundum á viku í valnámskeiðum. 

Undir tómstundarval falla skipulagðar íþróttaæfingar með þjálfara og tónlistarnám hjá tónlistarskóla.  Ósk þessa efnis þarf að koma fram þegar valið er.  

Tökum dæmi:

o Ef nemandi er í gítarnámi getur hann óskað eftir því að fá 2 stundir metnar.

o Ef nemandi æfir badminton getur hann óskað eftir því að fá 2 stundir metnar.

o Ef nemandi t.d. æfir handbolta og fótbolta getur hann óskað eftir því að fá 4 stundir metnar.  

o Ef nemandi t.d. stundar fimleika og er í píanónámi getur hann óskað eftir að fá 4 stundir metnar. 

Staðfesting á tómstundariðkun þarf að liggja fyrir innan viku frá skólasetningu að hausti en eftir það er ekki hægt að fá tómstundarval metið.  

Val nemenda hefur áhrif á skipulag komandi skólaárs og því verða breytingar ekki mögulegar eftir að skóli hefst haustið 2014.

Hver nemandi skal velja sér 8 valgreinar og setja töluna 1 við þá valgrein sem hann hefur mestan áhuga á, töluna 2 við þá valgrein sem hann hefur næst mestan áhuga á o.s.frv. 

 

© 2009 Ingunnarskóli, Maríubaugi 1 - 113 Reykjavík | Sími: 411-7828 | Fax: 411-7838 | Sendu okkur póst | Áskrift að fréttum |