Skip to content

Skólabyrjun
Skólasetning er mánudaginn 23. ágúst 2021. Nemendur sem eru að byrja í 1. bekk verða boðaðir í viðtöl/heimsókn ásamt foreldrum til umsjónarkennara mánudaginn 23. ágúst. Fundarboðin verða send út í ágúst. Fyrsti venjulegi skóladagurinn hjá nemendum 1. bekkjar verður því þriðjudaginn 24. ágúst.

 

Skólaheimsóknir
Nemendur í skólahóp Maríuborgar og Geislabaugs mæta í skólaheimsókn í Ingunnarskóla aðra hverja viku. Þar hitta þau kennara, vinna ýmis skólatengd verkefni og kynnast skólanum.

Að auki er öllum tilvonandi nemendum ásamt foreldrum boðið í heimsókn í maí hvers ár. Upplýsingar um dagsetningu er send til foreldra þegar nær dregur.

 

Skóladagatal
Á heimasíðu skólans er að finna skóladagatal Ingunnarskóla. Á því koma fram allar upplýsingar varðandi kennsludaga á skólaárinu, hvenær skólasetning og skólaslit eru ásamt starfsdögum og fríum.

 

Mentor – upplýsingakerfi
Auk heimasíðu skólans hafa nemendur og foreldrar aðgang að náms- og upplýsingarkerfinu Mentor á netinu. Þar er að finna upplýsingar um ástundun nemenda, heimavinnu, námsáætlanir og margt fleira. Þar hafa foreldrar einnig aðgang að stundatöflu nemandans.

Foreldrar fá aðgang að kerfinu með sérstöku aðgangsorði. Mikilvægt er að netföng og símanúmer foreldra séu rétt skráð og biðjum við foreldra að fylgjast með því.

 

Haustfundur
Haustfundur er haldinn fyrir foreldra að hausti. Þar eru kynntar áherslur skólans og skólastarfið. Kennarar kynna nám vetrarins. Á fundinn mæta einnig sérkennari, hjúkrunarfræðingur skólans og forstöðumaður Stjörnulands.

 

Skipulag skólastarfs í 1. bekk
Upplýsingar um starfshætti í 1. bekk er að finna hér.

 

Starfsáætlun
Hagnýtar upplýsingar um skólastarfið má nálgast í starfsáætlun skólans.

 

Upplýsingar varðandi nemendur með sérþarfir
Í Ingunnarskóla leggjum við okkur fram við að koma á móts við nemendur okkar með kennslu í litlum hópum, einstaklingskennslu eða með aðstoð inni í bekk. Leitast er við að styrkja sjálfsmynd nemandans með því að leggja áherslu á sterkar hliðar hvers og eins en jafnframt efla þær veiku á jákvæðan hátt. Lögð er áhersla á að framkoma við nemendur einkennist af jákvæðu viðmóti og virðingu. Í stoðkennslunni er unnið er út frá heilstæðri skólastefnu og lögð áhersla á fyrirbyggjandi starf. Nánari upplýsingar varðandi stoðþjónustu er að finna hér.

 

Íþróttir og sund
Nemendur 1. bekkjar eru tvisvar í viku í íþróttum og einu sinni í viku í sundi. Fyrstu vikurnar mun íþróttakennsla fara að mestu leyti fram utandyra og nemendur þurfa því að klæða sig eftir veðri og passa að fötin séu þægileg og gott að hreyfa sig í þeim. Að sjálfsögðu er boðið uppá það að klæða sig í búningsklefum fyrir tímana. Ef veður er leiðinlegt þá færist kennslan inn í sal. Þegar kennsla færist inní íþróttahús þurfa nemendur að vera í íþróttafatnaði og eru þau skólaus í tímum. Þau mega mæta í tátiljum en það er eins og fyrr segir ekki leyfilegt að vera í skóm.

Nemendur þurfa að mæta með sundföt (sundbolur, sundskýla eða íþróttabikiní). Venjuleg bikiní og stuttbuxur er ekki æskilegur sundfatnaður vegna þess að hann hefur áhrif á getu nemenda til sunds.

 

Opnunartími skrifstofu og upphaf kennslu
Skrifstofa skólans er opin frá kl. 7:45 - 14:30. Boðið verður upp á gæslu fyrir nemendur 1. bekkjar frá kl. 8:00 inni í heimastofu. Kennsla hefst hjá öllum nemendum klukkan 8:30.

 

Matarskráning
Skráning á nýjum nemendum í mat fer fram í gegnum Völu.

Boðið er upp á hafragraut á morgnana frá kl. 8:00-8:30. Gott er að nemendur mæti með vatnsbrúsa með sér í skólann. Einnig óskum við eftir að nemendur komi með nesti í fjölnota nestisboxum og munu þeir taka afgangsnesti með sér heim en með því móti geta foreldrar betur fylgst með hvað börn þeirra borða af nestinu.

 

Námsgögn
Nemendur Ingunnarskóla fá öll námsgögn í skólanum og því þurfa nemendur aðeins að mæta með skólatösku og íþróttaföt/sundföt þegar það á við. Gott er að eiga heima ritföng til að notast við þegar heim er komið.

 

Merkingar á fötum og öðrum eigum
Nemendur í 1. bekk eru með aðstöðu í fataklefa við heimastofu sína. Nauðsynlegt er að merkja föt og annað sem börnin eiga. Því fleira sem er merkt, því betra. Skólaliðar halda til haga fötum og öðru sem gleymist í skólanum. Þegar samráðsdagar eru liggur þessi fatnaður frammi og foreldrar geta vitjað glataðra muna.

 

Frístundaheimili
Frístundaheimilið við Ingunnarskóla heitir Stjörnuland og er til húsa í Kirkjustétt 2-6. Innritun í Stjörnuland fer fram í gegnum Rafræna Reykjavík.

 

Leyfisveitingar - veikindi
Veikindi eða stutt leyfi skulu forráðamenn eða aðstandendur tilkynna áður en kennslustund hefst og síðan daglega á skrifstofu skólans í síma 411-7828 eða á netfangið ingunnarskoli@rvkskolar.is . Einnig er hægt að tilkynna veikindi í gegnum foreldraaðgang í Mentor. Ef um lengra leyfi en 2 daga er að ræða þarf að fylla skriflega út leyfisbeidni og skila á skrifstofu.