Skip to content

Foreldrafélag Ingunnarskóla

Almennar upplýsingar

Foreldrafélag er formlegur samstarfsvettvangur forráðamanna þar sem þeim gefst kostur á að ræða skólagöngu barna og hvaðeina sem snertir uppeldi og menntun.

Lög foreldrafélags Ingunnarskóla

1. grein. Nafn félagsins og aðild að því
Félagið heitir Foreldrafélag Ingunnarskóla. Heimili þess er í Ingunnarskóla, Maríubaugi 1, Reykjavík. Félagar eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Ingunnarskóla.

2. grein. Markmið félagsins
Foreldrafélag Ingunnarskóla er stofnað til að koma á fastri skipan samstarfs foreldra og skóla. Félagið skal vinna að heill og hamingju nemenda Ingunnarskóla og styrkja skólann í hvívetna. Félagið skal taka mið af ákvæðum laga og reglugerða sem Alþingi og menntamálaráðuneytið setja um grunnskóla.

Markmið félagsins er:
• Að efla kynni foreldra innbyrðis og koma á umræðu og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál.
• Að veita skólanum lið svo að aðstæður til náms og félagslegra starfa verði sem bestar hverju sinni.
• Að veita skólanum aðstoð vegna ákveðinna verkefna og starfa í skólanum.
• Að standa að útgáfu fréttabréfs til kynningar og fróðleiks.
• Að taka þátt í samstarfi við foreldrafélög og foreldra- og kennarafélög svo og samtök sem vinna að málefnum barna og unglinga.

3. grein. Aðalfundur og stjórn
Aðalfund félagsins skal boða í seinasta lagi í september ár hvert og boða til hans með minnst viku fyrirvara. Fundurinn skal haldinn í húsnæði skólans. Félagar skulu boðaðir skriflega. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, sbr. þó 7. grein. Félagið kýs sér fimm manna stjórn til eins árs í senn. Þó er æskilegt að ekki fleiri en þrír gangi úr stjórn hverju sinni. Á sínum fyrsta stjórnarfundi skiptir stjórnin með sér verkum og kýs formann, ritara, gjaldkera, varaformann og meðstjórnanda og velur fulltrúa félagsins í SAMFOK. Jafnframt skal kjósa tvo varafulltrúa og skoðunarmann reikninga. Stjórnin heldur fund minnst einu sinni í mánuði yfir skólaárið. Stjórn félagsins markar stefnu þess og starfsáætlun. Stjórnin heldur minnst einn almennan foreldrafund á skólaárinu og kynnirsamþykktir félagsins og starf þess.

4. grein
Stjórn félagsins skal ekki sinna ágreiningi eða hafa afskipti af vandamálum er upp kunna að koma milli einstakra foreldra og starfsmanna skólans.

5. grein. Bekkjarfulltrúi
Kosning bekkjarfulltrúa skal fara fram á foreldrafundi í hverri bekkjardeild í byrjun skólaárs. Kjósa skal tvo til þrjá fulltrúa foreldra úr hverjum bekk, sem fara með umboð allra foreldra barna hvers bekkjar. Verksvið fulltrúanna er að vinna að góðum tengslum milli barna, foreldra og bekkjarkennara. Mappa með upplýsingum fyrir bekkjarfulltrúa skal fylgja hverjum bekk. Stjórn skipar tengilið við hvern bekkjarfulltrúa. Stjórn skal funda með bekkjarfulltrúum í byrjun hverrar annar skólaársins.

6. grein. Foreldraráð
Samkvæmt 16. grein laga um grunnskóla skal foreldraráð starfa við skólann. Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, fylgist með að áætlanir séu kynntar foreldrum, svo og með framkvæmd þeirra. Félagið kýs sér þrjá fulltrúa í foreldraráð samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga til tveggja ára í senn og þrjá til vara. Kosið skal í foreldraráð á aðalfundi nema annað sé ákveðið. Samráð skal vera milli stjórnar foreldrafélags og foreldraráðs. Æskilegt er að einn til tveir fulltrúar úr foreldraráði sitji einnig í stjórn félagsins.

7. grein
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna, enda hafi tillögur um lagabreytingar verið kynntar í fundarboði. Breytingartillögur verða að berast stjórn með minnst 3ja daga fyrirvara.

8. grein. Slit foreldrafélagsins
Ákvörðun um slit félagsins verður tekin með einföldum meirihluta á stjórnarfundi og renna þá eignir þess til Ingunnarskóla.

Handbók foreldrafélaga grunnskóla

Heimili og skóli hafa gefið út handbækur fyrir fulltrúa foreldra á öllum skólastigum. Í þeim er lýst starfi foreldrafélaga og foreldra- og skólaráða.  

Handbók foreldrafélaga grunnskóla.

Fréttir úr starfi

Grunnskólamótið í knattspyrnu

Nemendur Ingunnarskóla tóku þátt í grunnskólamótinu í knattspyrnu sem fór fram í Egilshöll. Keppt var í drengja og stúlknaflokki í 7. og 10. bekk og sendum við…

Nánar