Skip to content

Starfshættir

Í Ingunnarskóla er stefnt að því að veita nemendum skólans bestu mögulegu tækifæri til að þroskast í fjölbreyttu og skapandi námsumhverfi. Leiðarljós skólans er að nemendur verði sjálfstæðir og skapandi, virkir og ábyrgir einstaklingar sem  geta tekist á við síbreytilegt samfélag. Þeir eru hvattir til að taka ábyrgð á eigin námi og stuðlað er að því að þeir sjái tilgang í vinnu sinni og verkefnum. Áhersla er á að efla nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum og að þeir læri að leita sér upplýsinga með fjölbreyttum hætti. Mikilvægur þáttur í skólastarfinu er að örva sjálfstæða og gagnrýna hugsun og leitast er við að gera það á sem flestum sviðum skólastarfsins.

Markvisst er unnið að því að skapa öruggt náms-og starfsumhverfi og uppbyggjandi skólaanda þannig að nemendum og starfsfólki líði vel. Skólinn er öllum opinn og eru foreldrar alltaf velkomnir til að taka þátt í starfinu eða kíkja í heimsókn. Lögð er áhersla á að nemendur komi fram af virðingu hver við annan og alla sem þeir eiga samskipti við innan og utan skólans.

Við hönnun og skipulag Ingunnarskóla var lögð áhersla á að skapa ríkulegt námsumhverfi og stuða að samvinnu, sjálfstæði, sköpun, samþættingu námsgreina og tengslum við grenndarsamfélagið. Við þróun þeirra starfshátta sem einkenna starf skólans er lögð áhersla á starf kennarateyma en hverjum árgangi kenna tveir kennarar sem vinna náið saman. Þeir skipuleggja starfið en hafa ákveðið frelsi til sjálfræðis innan þeirra marka sem grundvöllur og sýn skólans setur. Samræmi í starfsemi mismunandi teyma er tryggt með skipulagðri umræðu og kynningu innan skólans svo teymin megi fá stuðning hvert af öðru og nýta sér það sem best þykir í hverju tilviki.

Starfshættir 1.-2. bekkur

Starfshættir 3.-4. bekkur

Starfshættir 5.-7. bekkur

Starfshættir 8.-10. bekkur