Skip to content

Um Ingunnarskóla

Stefna Ingunnarskóla er byggð á menntastefnu sem birt er í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 en sú stefna er reist á sex grunnþáttum menntunar.

https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f7d55056-989c-11e7-941c-005056bc4d74

Einnig er byggt á stefnu og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. https://reykjavik.is/stefna-og-starfsaaetlun-sfs

Einkunnarorð Ingunnarskóla eru virðing - ábyrgð - vinsemd

Í Ingunnarskóla er stefnt að því að veita nemendum skólans bestu mögulegu tækifæri til að þroskast í fjölbreyttu og skapandi námsumhverfi. Leiðarljós skólans er að nemendur verði sjálfstæðir og skapandi, virkir og ábyrgir einstaklingar sem  geta tekist á við síbreytilegt samfélag. Þeir eru hvattir til að taka ábyrgð á eigin námi og stuðlað er að því að þeir sjái tilgang í vinnu sinni og verkefnum. Áhersla er á að efla nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum og að þeir læri að leita sér upplýsinga með fjölbreyttum hætti. Mikilvægur þáttur í skólastarfinu er að örva sjálfstæða og gagnrýna hugsun og leitast er við að gera það á sem flestum sviðum skólastarfsins.

Markvisst er unnið að því að skapa öruggt náms-og starfsumhverfi og uppbyggjandi skólaanda þannig að nemendum og starfsfólki líði vel. Skólinn er öllum opinn og eru foreldrar alltaf velkomnir til að taka þátt í starfinu eða kíkja í heimsókn. Lögð er áhersla á að nemendur komi fram af virðingu hver við annan og alla sem þeir eiga samskipti við innan og utan skólans.

Við hönnun og skipulag Ingunnarskóla var lögð áhersla á að skapa ríkulegt námsumhverfi og stuða að samvinnu, sjálfstæði, sköpun, samþættingu námsgreina og tengslum við grenndarsamfélagið. Við þróun þeirra starfshátta sem einkenna starf skólans er lögð áhersla á starf kennarateyma og frelsi þeirra til sjálfræðis innan þeirra marka sem grundvöllur og sýn  skólans setur. Samræmi í starfsemi mismunandi teyma er tryggt með skipulagðri umræðu og kynningu innan skólans svo teymin megi fá stuðning hvert af öðru og nýta sér það sem best þykir í hverju tilviki.

Ingunnarskóli er staðsettur í nýju hverfi í útjaðri borgarinnar þar sem stutt er í skemmtilega náttúru sem nýtt er í daglegu starfi og leik. Áhersla er lögð á útikennslu sem samþætt er í allar greinar. Skólinn er þátttakandi í verkefninu um Grænfánann en í því verkefni er lögð áhersla á ábyrga hegðun gagnvart umhverfinu, innan skólans sem utan. Mikið er lagt upp úr því að nemendur þekki hverfið sitt, stofnanir, félagssamtök, helstu kennileiti og sögu hverfisins og að skólinn eigi gott samstarf við grenndarsamfélagið. Samstarf er við ÍTR um starfsemi frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar. Tónlistarskóli Árbæjar og kennari frá Skólalúðrasveit Grafarvogs starfa í skólanum bæði fyrir nemendur og almenning, bæði innan og utan skólatíma. Vatnstankar Orkuveitu Reykjavíkur eru ákveðið kennileiti við skólann og er einn dagur að hausti tileinkaður vinnu og fróðleik í tengslum við þá.

Í Ingunnarskóla  fylgir meginþorri nemenda sömu áætlun en áhersla er á að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti sem gefa nemendum kost á námi við hæfi. Þessu er meðal annars mætt með því að vera með fjölbreytt verkefni á stöðvum þar sem nemendur geta valið sér viðfangsefni eftir getu og áhuga. Samþætting námsgreina hefur frá upphafi verið mikilvægur þáttur í starfi Ingunnarskóla. Námið er að hluta til skipulagt í svokölluðum þemum og stuðst við markmið Aðalnámskrár grunnskóla fyrir allar greinar sem fléttast inn í þemavinnuna. Nemendur eru hvattir til að taka ábyrgð á eigin námi og takast á við verkefni með jákvæðum og skapandi huga.

Til að bregðast við mismunandi þörfum og getu nemenda og tryggja að þeir fái nám við hæfi er byggt á nánu samstarfi og upplýsingagjöf milli kennara, stoðþjónustu og námsráðgjafa. Athyglinni er þá meðal annars beint að því hvort nemandi þurfi að þjálfa félags og samskiptahæfni eða hvort þörf sé á sérstökum stuðningi á einhverju ákveðnu sviði.

Stjórnendur

Skólastjóri: Guðlaug Erla Gunnarsdóttir

Aðstoðarskólastjóri: Þuríður Guðrún Sigurjónsdóttir

Deildarstjóri 1.- 7. bekk: Ragnheiður Skúladóttir

Verkefnastjóri 8.-10. bekk: Guðrún Þóra Bjarnadóttir

Verkefnastjóri list- og verkgreina: Sigríður Rafnsdóttir

Deildarstjóri verkefna: Guðbjörg Bjarnadóttir

Deildarstjóri stoðþjónustu: Guðmunda Gunnlaugsdóttir

Leiðsagnarkennari: Regína Sigrún Ómarsdóttir

Verkefnastjórar íslenskuvers: Berglind Arndal Ásmundsdóttir og Sigrún Árdís Einarsdóttir

Skrifstofustjóri: Lilja Rós Jóhannesdóttir

Umsjónarmaður fasteignar: Kristín Ragnarsdóttir