Skip to content

Heilsuvernd skólabarna

Heilsugæsla Árbæjar og Grafarholts sinnir heilsugæslu í Ingunnarskóla.

Helga Jóhannsdóttir er hjúkrunarfræðingur Ingunnarskóla og viðvera hennar er:

þriðjudaga          8:30 – 12:00

miðvikudaga       9:30 - 12:00

fimmtudaga        8:30 - 12:00

föstudaga           8:30 – 12:00

Netfang: ingunnarskoli@heilsugaeslan.is

Ef foreldrar eða forráðamenn nemenda vilja hafa samband við hjúkrunarfræðing er hægt að hringja í skólann á viðverutíma eða senda tölvupóst. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar

Markmið heilsuverndar
Markmið heilsuverndar í skólum er að stuðla að því að börnin fái að þroskast við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu skilyrði sem völ er á. Því óskar hjúkrunarfræðingur eftir sem bestu samstarfi við foreldra og forráðamenn nemenda ásamt skólastjórnendum og kennurum sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi.

Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Unnið er samkvæmt leiðbeiningum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna.

Nánari upplýsingar um heilsuvernd skólabarna finnið þið hér.

Breytingar á högum – lyfjanotkun
Nauðsynlegt er að hjúkrunarfræðingur sé látinn vita ef meiriháttar breyting verður á högum barns eða ef um langvinna sjúkdóma og lyfjanotkun er að ræða. Slíkt getur eðlilega haft mikil áhrif á líðan barnsins og þar af leiðandi á hegðun þess og námsgetu.

Fræðsla 
Skólahjúkrunarfræðingur sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu fyrir bekki eða afmarkaða hópa eftir því sem við verður komið. Fræðslan fer fram í náinni samvinnu við kennara. Foreldrar/forráðamenn fá upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna, þá gefst þeim kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig er hægt að nýta það í daglegu lífi.

Skimanir skv. tilmælum Landlæknisembættisins
Skimað er fyrir ákveðnum heilbrigðisvandamálum og eru skimanir framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. bekk. Þær felast í mælingu á hæð, þyngd og sjónskerpu. Nemendur í öðrum árgöngum eru skimaðir eftir þörfum. Ef frávik reynist í skimun er ávallt haft samband við forráðamann.

Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir skólahjúkrunarfræðingur við nemendur um líðan og lífsvenjur. Markmið viðtalanna er að styrkja vitund nemenda um eigið heilbrigði og líðan. Einnig að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur.

Bólusetningar
Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum.

Í 7. bekk er bólusett við mislingum, hettusótt og rauðum hundum (ein sprauta), auk þess eru stúlkur bólusettar gegn HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. HPV bólusetning er gefin tvisvar með 6 mánaða millibili.

Í 9. Bekk er bólusett við barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt (ein sprauta).

Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra með upplýsingum um tímasetningu. Gott er að nemendur komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning fer fram.

Hafið samband við skólahjúkrunarfræðing ef:

  • Nánari upplýsinga er óskað
  • Talið er að barn sé ekki að fullu bólusett
  • Óskað er eftir því að barn sé ekki bólusett Það er á ábyrgð foreldra að láta bólusetja börn sín.

Tannviðgerðir
Enginn sérstakur skólatannlæknir er við skólann og er nemendum heimilt að fara til hvaða tannlæknis sem er. Frá og með 1.janúar 2018 eru tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir öll börn undir 18 ára að undanskildu 2500 kr. gjaldi við fyrstu komu.

Skólaslys
Slasist nemandi í skólanum veitir skólaliði, skólahjúkrunarfræðingur eða kennari skyndihjálp. Þurfi barnið að fara til læknis er haft samband við foreldra en æskilegast er fyrir barnið að foreldri fylgi því. Í þeim tilfellum sem ekki næst í foreldri fer einhver úr starfsliði skólans með nemandanum.

Svefn
Að gefnu tilefni eru foreldrar og forráðamenn minntir á hve mikilvægt er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld. Þreyta getur komið í veg fyrir að þau fái notið kennslu eða sinnt því starfi sem fer fram í skólanum og vinnan fer fyrir ofan garð og neðan.

Hæfilegur svefn er talinn vera:

5–8 ára börn 10–12 klst. á sólarhring

9–12 ára börn 10–11 klst. á sólarhring

13–15 ára unglingar 9–10 klst. á sólarhring

Langveik börn
Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra alvarlega sjúkdóma. Hlutverk skólahjúkrunarfræðingsins er að skapa þessum börnum viðeigandi aðstæður og umönnun í skólanum í samvinnu við foreldra og starfsfólk skólans.

Lús
Því miður hefur það verið fastur liður í mörgum skólum undanfarin ár að lús komi upp. Nauðsynlegt er að láta vita í skólann ef lús finnst í hári nemanda. Lús tengist ekki sóðaskap og er algjörlega hættulaus. Ef tilkynning um lús berst skólanum munu allir nemendur viðkomandi bekkjar fá tilkynningu heim. Foreldrum er bent á nauðsyn þess að bregðast við slíkum tilkynningum og kemba hár nemenda. Hægt er að nálgast leiðbeiningar hjá skólahjúkrunarfræðingi, á vefsíðu landlæknis, landlaeknir.is eða á heilsuvera.is.