Skip to content

Í Ingunnarskóla leggjum við okkur fram við að koma á móts við nemendur okkar með kennslu í litlum hópum, einstaklingskennslu eða með aðstoð inni í bekk. Leitast er við að styrkja sjálfsmynd nemandans með því að leggja áherslu á sterkar hliðar hvers og eins en jafnframt efla þær veiku á jákvæðan hátt. Lögð er áhersla á að framkoma við nemendur einkennist af jákvæðu viðmóti og virðingu. Í stoðkennslunni er unnið er út frá heilstæðri skólastefnu og lögð áhersla á fyrirbyggjandi starf.

Námsleiðir

Tímabundin sérkennsla
Flestir nemendur fá tímabundna sérkennslu, þar sem unnið er með ákveðinn námsþátt í afmarkaðan tíma. Í sérkennslu í Ingunnarskóla er miðað við að ekki séu fleiri en fjórir nemendur í námshóp í sérkennslu. Mælst er til þess að unnið sé inni á heimasvæði nemenda oft á afmörkuðum stað. Einnig er námsver nýtt ef nemandi/nemendur óska eftir því og kennari telur þörf á. Skipulagið fer eftir þörfum viðkomandi nemenda og ákvörðun sérkennara.

Félagsfærni – ART – þjálfun
Kennd er félagsfærni í minni hópum. Kennsla fer fram í sex vikna námskeiði og er í umsjón þroskaþjálfa skólans.

Hvatningarkerfi
Í Ingunnarskóla er lögð áhersla á að styrkja jákvæða hegðun hjá öllum nemendum. Þeir nemendur sem þurfa enn meiri hvatningu og/eða yfirsýn yfir dagsskipulag vinna samkvæmt hvatningarkerfi sem sérsniðið er fyrir nemandann. Hvatningarkerfið er hannað af umsjónarkennara, sérkennara og foreldrum. Markmiðið er fyrst og fremst að nemandinn fái jákvæða styrkingu þegar vel gengur og/eða gleggri mynd af skóladeginum. Umbun (verðlaun) tengist oftast hvatningarkerfinu og er hún oft veitt heima hjá viðkomandi nemanda. Þá gefst foreldrum og nemendum tækifæri til að ræða saman um hvernig gekk í skólanum.

Atvinnutengt nám
Atvinnutengt nám stendur nemendum í 9. og 10. bekk til boða. Nemendur vinna þá allt að fjórar klukkustundir á viku. Reynt er að finna vinnustað sem nemandi hefur áhuga á að kynna sér betur.  Námsráðgjafi í samvinnu við starfsmann þjónustumiðstöðvar leitast við að finna vinnustað sem hentar.

Námsver 
Námsver Ingunnarskóla er miðstöð stoðkennslunnar. Stoðkennslan fer þó að stærstum hluta fram á vinnusvæðum nemenda þar sem hún er hluti af heilstæðu námi þeirra. Á næsta ári verður námsverið opið fyrir nemendur skólans einn og hálfan tíma á dag. Tilboðið er ætlað þeim nemendum sem eiga erfitt með að vinna inn á svæði og þurfa hvíld frá nemendahópnum.

Stuðningur inn í bekk
Stuðningsfulltrúar veita nemendum stuðning inn á svæði. Stuðningsfulltrúi gefur nemanda einstaklingsfyrirmæli eftir að kennari gefur hópfyrirmæli og aðstoðar nemanda/nemendur við að fara eftir þeim fyrirmæli sem hafa verið gefin.

Stuðningur í námsveri
Einn til fjórir nemendur fara með stuðningsfulltrúa inn í námsver og vinna verkefni bekkjarins þar. Oft gefst tími til að spila á spil í lok tímans þegar verkefnavinnu er lokið. Stuðningur í námsveri er hugsaður sem fyrirbyggjandi þannig að nemendur fái hvíld frá áreiti, þetta er ekki hugsað sem refsing fyrir þá nemendur sem vinna í námsveri.

Aðstoð í lok skóladags með heimavinnu og áætlun
Boðið er upp á heimavinnuaðstoð fyrir þá nemendur sem ná ekki að ljúka áætlun í skóla og eiga erfitt með að fá aðstoð heima. Í 1.- 7. bekk hafa stuðningsfulltrúar umsjón með heimavinnutímanum í lok skóladags. I 8.-10. bekk er eitt valfag heimavinnuval sem hefur verið vinsælt meðal nemenda unglingadeildar.

Sundtímar og aukahreyfing
Tveir tímar í viku eru opnir tímar fyrir nemendur í sundi, þessir tímar hafa einkum verið nýttir fyrir nemendur yngsta stigs. Einnig er auka hreyfing einu sinni í viku og hefur einkum verið nýttir fyrir nemendur í 1-3. bekk.

Þemavika og útidagar
Einu sinni á skólaári er þemavika í skólanum. Þá viku bjóða sérkennarar og þroskaþjálfi ásamt stuðningsfulltrúum upp á áhugatengt nám í námsveri. Þetta tilboð hentar einkum vel fyrir þá nemendur sem eiga erfitt með að vera inn á svæði þar sem óhefðbundin kennsla fer fram og ramminn er ekki eins mikill. Þetta tilboð hefur hentað sérstaklega vel nemendum með fatlanir eins og einhverfu sem eru ekki alltof hrifnir af að breyta til.

Vinnustund
Nemendur vinna skilgreinda vinnustund þar sem lagt er áhersla á að nemendur læri sjálfstæð vinnubrögð. Verkefni eru lögð í hillur, þegar eitt verkefni er unnið þá tekur næsta verkefni við þangað til að öll fjögur verkefnin eru fullunnin.  Áætlað er að nemandi vinni á hverjum degi í vinnustund 20 – 30 mín. í senn.

Skimanir

Einstaklingsáætlanir

Tengsl einstaklingsnámskráa við bekkjarnámskrár/námsvísa
Leitast er við að gera grein fyrir aðlögun í prósentum (%) miðað við námsefni jafnaldra í einstaklingsnámsskrá. (t.d. 20% aðlögun í námsefni bekkjarins, þýðir að nemandi tekur 80% af námsefninu og sleppir 20%). Í einstaklingsnámskrá kemur fram staða nemandans í faginu, markmið, kennsluhættir og námsmat. Námskrá í viðkomandi grein er höfð til hliðsjónar þegar unnið er að einstaklingsnámskrá.

Heimavinna styttist einnig og er skráð á nemendur inn á Mentor. Námsmat verður að vera í samræmi við námsefni.Sérkennari færir inn á einkunnarspjald upplýsingar um einstaklingsmiðun.

Ábyrgð á vinnslu einstaklingsnámsskráa
Umsjónarkennari og sérkennari á svæði bera ábyrgð á vinnslu einstaklingsnámsskráa í samvinnu við foreldra.

Aðkoma foreldra að einstaklingsnámskrám
Á fundi sem umsjónarkennara, foreldrar og starfsfólk stoðþjónustunnar sitja er nám og líðan nemandans rædd. Foreldrar koma með sína sýn og hvað þeim finnst mikilvægt. Starfsfólk skólans segir frá hvað er framundan hjá námshópnum. Rætt er hvaða leið er heillvænlegast að fara fyrir nemandann. Sérkennari /þroskaþjálfi gera drög að einstaklingsnámskrá út frá þeim umræðum sem eiga sér stað á fundinum. Reynt er að hittast aftur þar sem farið er yfir drög að einstaklingsnámskrá og gerðar þær breytingar sem þarf að gera. Oftast er miðað við að 4-6 vikur líði milli þess að einstaklingsnámskrá er rædd og þangað til hist er aftur og farið yfir einstaklingsnámskrána.