Skip to content

Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga

Í Ingunnarskóla er unnið eftir hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar sem miðar að því að efla ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga, þjálfa þau í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Vinnuaðferðunum er einnig ætlað að styðja starfsmenn skólans við að móta skýra stefnu varðandi samskipti og agamál. Áhersla er á uppbyggilegar samskiptaaðferðir sem ýta undir sjálfsaga og styrkja einstaklinga í því að læra af mistökum sínum. Unnið er að því að ná samstöðu um lífsgildi og fylgja þeim síðan eftir með skýrum reglum.

Uppeldi til ábyrgðar hefur áhrif á kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála. Hugmyndafræðin byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðislegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömmum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín.

Diane Gossen þróaði þessa hugmyndafræði út frá viðurkenndum vísindalegum kenningum um eðli mannlegrar hegðunar og byggir á hugmyndum dr. William Glasser um Gæða skólann.

Bækurnar Barnið mitt er gleðigjafi og Sterk saman eftir Diane Gossen eru aðgengilegar á skólabókasafninu fyrir foreldra og starfsmenn skólans.

Sjá nánar um hugmyndir Uppeldis til ábyrgðar á vefsíðunni: Uppbygging.is